Sýningin Kliður er núna til sýnis hjá Listamönnum Skúlagötu 32. Sýningin opnaði 20. febrúar og stendur til 20. mars. Opið er virka daga kl. 9-17 og á laugardögum kl. 12-16
Um sýninguna
Á einkasýningu sinni KLIÐUR sýnir Guðjón Ketilsson nýjar teikningar/tákn/teikn og þrívítt verk. Titill sýningarinnar vísar á hljóðrænan hátt til þess mikla massa af orðum og umgjörðum orða, sem listamaðurinn teiknar inn á myndflöt flestra verkanna; orð sem kjósa að hjúfra sig hvert að öðru, snúa sér í allar áttir á myndfletinum og eiga þannig í nokkurskonar samtali sín á milli svo úr verður kliður, einskonar myndrænn hljóðveggur, vegna þess að hvert orð tengist öðru en er um leið mynstur og sjálfstætt form.
–
Guðjón Ketilsson (f. 1956) hefur haldið um fjörutíu einkasýningar á rúmlega fjögurra áratuga löngum ferli sínum og tekið þátt í fjölda samsýninga á Íslandi og í Evrópu, Bandaríkjunum, Kína og Ástralíu. Verk hans eru í eigu allra helstu listasafna á Íslandi, svo og nokkurra erlendis. Auk þess að vera boðið að vinna að list sinni á ýmsum alþjóðlegum vinnustofum, hefur hann verið valinn til þátttöku í fjölda samkeppna um gerð listaverka í opinberu rými og má sjá nokkur slík verk hans í Reykjavík, Seyðisfirði og á Norðurlöndunum.
Guðjón var valinn Listamaður ársins 2019 á Íslandi, af fagnefnd Myndlistarráðs. Hann hlaut Menningarverðlaun DV árið 2000 og verðlaun Listasafns Einars Jónssonar árið 1998.